Stærsti banki Bandaríkjanna, Bank of America, tilkynnti í gærkvöldi að á næstu 3-5 árum verði fjölmörgum útibúum bankans lokað víðsvegar um Bandaríkin en bankinn rekur nú um 6.100 útibú í 32 fylkjum.

Lokun á útibúum bankans er hluti af verulegum hagræðingaraðgerðum bankans. Bankinn keypti fjárfestingabankann Merrill Lynch um síðustu áramót og með samrunanum varð til stærsta bankasamstæða landsins.

Ljóst er að Bank of America mun segja upp þúsundum starfsmanna á umræddum tíma. Talsmaður bankans sagði þó í gær að aðgerðirnar væru óumflýjanlegar. Bæði væri nauðsynlegt að hagræða í rekstri auk þess sem sífellt fleiri sinntu bankaviðskiptum sínum í gegnum net og síma og því væri minni þörf á útibúum. Hann neitaði þó að til stæði að loka um 10% allra útibúa, eða um 600 talsins, eins og fjölmiðlar vestanhafs höfðu greint frá í upphafi vikunnar.

Í umfjöllun Bloomberg fréttaveitunnar kemur fram að á næstu misserum muni bankasamstæðan tilkynn um frekari hagræðingaraðgerðir en samkvæmt heimildum fjölmiðla vestanhafs stendur til að stokka verulega upp á millistjórnendasviði bankans.

Þá greinir Reuters fréttastofan frá því að aðrar bankasamstæður íhugi einnig lokun útibúa víðsvar um Bandaríkin. Wells Fargo rekur í dag um 6.700 útibú eftir að bankinn keypti Wachovia bankann um síðustu áramót. Leiða má líkum að því að einhverjum útibúum bankans verði lokað en á mörgum svæðum voru útibú bankanna nálægt hvor öðrum.

Þá rekur JP Morgan, næst stærsti bankinn vestanhafs, um 5.200 útibú í 23 ríkjum eftir að hafa í fyrra keypt sparisjóðinn Washington Mutual.

Viðmælandi Reuters segir ljóst að útibúum muni fækka verulega á næstu árum, sérstaklega í ljósi tækninnar sem gerir þau að mörgu leyti óþörf.

„Í raun eru bankarnir að reka stóran hluta útibúa sinna af góðgerðarstarfssemi. Þau eru víða hvar óhagstæð og eftir mikinn samruna bankastofnanna síðustu 12-18 mánuði er ljóst að ekki verður þörf fyrir öll þessi útibú,“ segir viðmælandi Reuters sem sagður er þekkja vel til í einstaklingsbankaþjónustu.