Niðurstöður bandarískra kannana sýna að bílaeigendur þar í landi eiga bíla sína lengur en fyrir kreppu. Einstaklingar sem kaupa nýja bíla eiga þá nú að meðaltali í næstum sex ár. Þetta kemur fram í frétt bandaríska dagblaðsins Los Angeles Times.

Efnahagsþrengingar síðustu ára virðast hafa orðið til þess að einstaklingar eiga bílana sína lengur og greiða jafnframt afborganir af þeim samviskusamlega. Samhliða þessu virðast margir hafa áttað sig á að bílarnir þeirra eru mun áreiðanlegri en við var búist.

Ætla má að tíðindin séu slæm fyrir bílaframleiðendur og bíða megi eftir því að sölutölur komist í svipað horf og var fyrir kreppu. Verkstæði og framleiðendur varahluta geta þó fagnað enda meira að gera við að halda eldri bílum í standi.