Fjárfestar í Bandaríkjunum hafa kallað inn skuldabréf íslensku bankanna fyrir tugi milljarða króna, segir í frétt Morgunblaðsins.

Guðni Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri fjárstýringar Kaupþings banka, segir ástæðuna breytt kjör bréfanna en ekki breytt mat á áreiðanleika bankans.

Ávöxtunarkrafa skuldabréfa íslensku bankanna hefur sveiflast mikið í kjölfar neikvæðra greinininga erlendra greiningaraðila á íslenska hagkerfinu og íslensku bönkunum.

Guðni segir í samtali við Morgunblaðið að þeir fjárfestar sem hafa sagt upp bréfunum hafi ekki verið heimilt að eiga bréf sem sveiflast svona mikið og því ákveðið að nýta ákvæði á skuldabréfasamningunum og kalla bréfin inn.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er búið að kalla inn 42 milljarða af skuldabréfum Kaupþings, sem hækkar endurfjármögnunarþörf bankans um 25%, og umsjö milljarða hjá Landsbanka Íslands.

Upplýsingar um innkallanir skuldabréfa Glitnis voru ekki fáanlegar, en Morgunblaðið áætlar að þær nemi tugum milljarða miðað við umfang útgáfu bankans í Bandaríkjunum.