Hlutabréfamarkaðir lækkuðu í Bandaríkjunum í dag eftir að hafa þó hækkað fram eftir degi.

Nasdaq vísitalan lækkaði um 1,25%, Dow Jones um 1,5% og S&P 500 um 0,75%.

Að sögn Bloomberg fréttaveitunnar voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins en auk þess komu félög eins og Kraft Foods og Walt Disney með neikvæðar afkomuspár sem ollu skjálfta meðal fjárfesta að sögn fréttaveitunnar.

Þannig lækkaði Walt Disney, sem er næst stærsta fjölmiðla- og afþreyingarfélag Bandaríkjanna, um 7,7% eftir að félagið tilkynnti að tekjur þess myndu lækka um þriðjung á fjórða ársfjórðungi síðasta árs.

Þá lækkaði Kraft Foods, næst stærsti matvælaframleiðandi heims, um 9,3% eftir að hafa sömuleiðis gefið út neikvæða afkomuspá fyrir fjórða ársfjórðung og í leiðinni sagst búast við minni tekjum á þessu ári.

Þá lækkaði Bank of America um 8,5%. Bréf félagsins höfðu þó fyrr í dag lækkað um 11,5% en hækkuðu lítillega eftir að Kenneth Lewis, forstjóri bankans sendi starfsmönnum minnisbréf þar sem sérstaklega var tekið fram að janúarmánuður hefði verið „ágætur“ miðað við aðstæður á mörkuðum.

Olíuverð lækkaði lítillega í dag en við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 40,4 Bandaríkjadali og hafði þá lækkað um 0,9%.