Hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum snerust við seinni part dags eftir að hafa sýnt rauðar tölur fram eftir degi.

Þannig hækkað Nasdaq vísitalan um 4,4%, Dow Jones um 3,1% og S&P 500 um 3,7%.

Sem fyrr segir lækkuðu helstu hlutabréfavísitölur í byrjun dags eftir að nýjar tölur voru birtar sem sýndu að 533 þúsund manns hefðu misst vinnuna í nóvember síðastliðnum sem er það mesta í 34 ár.

Þegar klukkan var gengin í tvö að staðartíma í New York snerust markaðir hins vegar við.

Að sögn Bloomberg fréttaveitunnar munaði þar mestu um tryggingafélagið Hartford Financial Services sem tilkynnti í dag að félagið myndi ná öllum markmiðum sínum fyrir árið 2008, þar með talið markmiðum um eigið fé og hagnað.

Hardford hafði lækkað um 92% það sem af er ári þangað til í dag. Í dag hækkaði félagið hins vegar um 102% (en hefur engu að síður lækkað um 73% það sem af er ári) eftir að Ramani Ayer, forstjóri félagsins sagði félagið „standa mun betur en búist hafði verið við,“ eins og hann orðaði það við blaðamenn.

Ónafngreindur viðmælandi Bloomberg segist hins vegar hissa yfir viðbrögðum markaða í kjölfarið. „Ég trúi þessu þegar ég sé tölurnar á blaði,“ sagði hann í samtali við Bloomberg.

Sá hluti S&P 500 vísitölunnar sem snýr að fjármálageiranum hækkaði í dag um 8,6% en þar munaði mestu um hækkun tryggingafélaga sem hækkuðu um 14%. Rétt er að geta þess að tryggingafélög eru mæld í sama hluta og fjármálafyrirtæki.

Þannig hækkuðu tryggingafélögin Prudential og Metlife um 35% og 22% svo dæmi séu tekin.