Bandaríski Seðlabankinn ákvað í dag að halda stýrivöxtum óbreyttum í 2%, annan fundinn í röð. Það er í samræmi við spár greiningaraðila, en af 63 spám greiningaraðila sem Bloomberg tók saman spáðu allir óbreyttum stýrivöxtum.

Samkvæmt frétt Bloomberg standa efnahagsógnir að Ben Bernanke seðlabankastjóra Bandaríkjanna á báða bóga. Lækkun stýrivaxta myndi auka enn á verðbólgu á meðan hækkun myndi gera ástandið á lánamarkaði enn verra og koma sér illa fyrir fjármálageirann.

Á síðasta vaxtaákvörðunarfundi fyrir þann í dag, sem haldinn var 25. júní, ákvað bandaríski Seðlabankinn að halda vöxtum óbreyttum eftir að hafa áður staðið fyrir hröðustu lækkun þeirra í tvo áratugi.

Síðan þá hefur efnahagsástand vestan hafs versnað, verðbólga í júní var 5% og atvinnuleysi 5,7%.

Bandaríski Seðlabankinn er fyrstur þriggja stórra seðlabanka til að kynna vaxtaákvörðun í þessari viku, en Englandsbanki og Seðlabanki Evrópu kynna stýrivaxtaákvarðanir sínar næsta fimmtudag.