*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Erlent 17. júlí 2019 09:19

Bandarískir tollar á Kína ólögmætir

Bandarískir tollar á tilteknar kínverskar vörur brjóta í bága við reglur WTO samkvæmt úrskurði stofnunarinnar.

Ritstjórn
David Malpass, nýskipaður forstjóri Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar, og Donald Trump, Bandaríkjaforseti.

Alþjóðaviðskiptamálastofnunin (WTO) hefur úrskurðað að tilteknir bandarískir tollar á Kínverskar vörur – sem lagðir voru á fyrir upphaf tollastríðs landanna tveggja – brjóti í bága við reglur stofnunarinnar. Financial Times segir frá.

Bandarísk yfirvöld mótmæla úrskurðinum harðlega, og segja að með honum grafi stofnunin undan eigin reglum. Viðskiptaráðuneyti Kína fagnar hinsvegar úrskurðinum, og segir viðvarandi brot Bandaríkjanna á alþjóðlegum viðskiptareglum hafa haft skaðleg áhrif á alþjóðaviðskipti.

Málið var höfðað af kínverskum yfirvöldum árið 2012 vegna tolla sem bandarísk yfirvöld lögðu á vörur sem þau töldu kínversk ríkisfyrirtæki niðurgreiða á ósanngjarnan hátt. Bandarísk yfirvöld hafa löngum kvartað yfir þeirri miklu ríkisaðstoð sem kínversk ríkisfyrirtæki fái, sem geri erlendum samkeppnisaðilum þeirra nánast ómögulegt að keppa við þau.

Áfrýjunardómur Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar féllst á rök Bandaríkjanna fyrir tollunum sem slíkum, en sagði Bandaríkin ekki mega ákvarða verðgrunn tollsins sjálf, heldur þyrftu þau að leggja kínversku verðin til grundvallar þeim útreikningum.

Fari Bandaríkin ekki eftir því héðan í frá veitir úrskurðurinn kínverskum yfirvöldum leyfi til að svara í sömu mynt.