Bandaríska fyrirtækið Biomark hefur keypt allt hlutafé í félaginu Vaki fiskeldiskerfi af Pentair, sem átt hefur Vaka í þrjú ár. Með nýrri stefnu Pentair var ákveðið að hætta allri starfsemi á sviði fiskeldis og hófust samningaviðræður við Biomark um mögulega sölu strax nú í sumar og var gengið frá viðskiptunum 17. desember síðastliðinn.

Biomark er í eigu MSD Animal Health og vilja fyrirtækin með kaupunum styrkja stöðu sína á fiskeldismarkaði. Vaki hefur í meira en þrjá áratugi verið í talningu og stærðarmælingu á eldisfiski, ásamt því að bjóða upp á heildarlausnir við dælingu, flokkun og talningu.

Hjá Vaka starfa 30 manns í höfuðstöðvunum á Íslandi, og 25 starfsmenn eru í Noregi, Skotlandi og Chile. Engar breytingar verða hjá starfsmönnum og mun Benedikt Hálfdanarson áfram stýra rekstri félaganna í þessum fjórum löndum.

Með nýjum eigendum telja eigendur tækifæri til að auka sókn fyrirtækisins á ákveðnum sviðum enda eru miklir vaxtarmöguleikar innan tækniþróunar fyrir fiskeldið. Biomark sér um merkingar á fiskum og selur um allan heim milljónir pit tag merkja og búnað til þess að skynja slík merki á villtum fiski sem og fiski í eldi.

Höfuðstöðvar Biomark eru í Boise í Idaho fylki Bandaríkjanna og þarf starfa rúmlega 50 manns. Móðurfélagið MSD Animal Health er stórt alþjóðlegt lyfjafyrirtæki með starfsemi í meira en 50 löndum. Höfuðáherslan er á þróun og sölu á bóluefnum, lyfjum, lækningavöru og margs konar vöru og þjónustu sem stuðla að aukinni dýravelferð.

Áhersla Vaka verður áfram á markaðstengda vöruþróun og aukið hágæða vöruúrval á sviði tækni og gervigreindar. Vaki hefur verið í örum vexti og telur félagið að það muni eflast með þessum breytingum meðal annars á sviði þróunar og þjónustu við viðskiptavini. Starfsfólk Vaka og Biomark horfi því björtum augum til aukinna umsvifa og nýrra áskorana á næstu árum.