Vogunarsjóðir í umsjón bandaríska sjóðstýringarfyrirtækisins Davidson Kempner Capital Management LLC hafa gríðarleg ítök í íslensku viðskiptalífi, að því er segir í úttekt Fréttablaðsins. Sjóðirnir eru stærsti einstaki kröfuhafi Glitnis, á meðal allra stærstu kröfuhafa Kaupþings, eiga stórar kröfur á Landsbankann, á meðal stærstu eigenda Straums og Klakka og hafa verið að kaupa upp hluti í Bakkavör Group af miklum móð.

Hagsmunir Davidson Kempner á Íslandi eru flestir í gegnum írskt skúffufyrirtæki, Burlington Loan Management Ltd., sem stofnað var 24. apríl 2009. Írski sjóðurinn er í raun í eigu góðgerðarsamtaka en hann er fjármagnaður og honum stýrt af Davidson Kempner.

Í ársreikningnum kemur fram að 38 prósent allra fjárfestinga sjóðsins hafi verið á Íslandi. Það þýðir að hann hafi fjárfest hérlendis fyrir rúmlega 94 milljarða króna. Stærstur hluti fjárfestinga Burlington er í fjármálafyrirtækjum.

Á árinu 2009 og framan af árinu 2010 voru slíkar kröfur seldar á mjög lágu verði af kröfuhöfum sem vildu ekki bíða eftir uppgjöri þrotabúa gömlu íslensku bankanna heldur fá eitthvað fyrir sinn snúð strax. Sjóðir á borð við Burlington keyptu þær kröfur í þeirri von að virði þeirra myndi hækka þegar fram liðu stundir.

Viðmælendur Fréttablaðsins telja nær öruggt að það muni fást á bilinu 25 til 30 prósent upp í almennar kröfur á bæði Glitni og Kaupþing. Miðað við þann tíma sem Burlington keypti kröfur sínar á bankana tvo er ljóst að virði þeirra hefur margfaldast og eigendur hlutdeildarskírteina geta búist við því að fá mikla ávöxtun á fjárfestingu sína, enda keyptu þeir þorra krafna sinna á hrakvirði.