Greiningarfyrirtækið Piper Jaffrey & Co. hefur uppfært verðmat sitt á deCODE genetics, móðurfélagi Íslenskrar erfðagreiningar, og gefur nú verðmat 5 dollara á hlut auk þess sem það hækkar markaðshorfur í yfirvogun (e. outperform). Í kjölfar greiningarinnar, sem birtist í gær, varð rösk hækkun á bréfum deCODE á Nasdaq.

Í greiningu sinni benda sérfræðingar Pipers á að það meigi vænta töluverðra tíðinda frá deCODE á næsta ársfjórðungi. Bæði sé að vænta upplýsinga úr vísindarannsóknum félagsins og einnig sé ætlunin að ýta úr vör fyrsta CLIA greiningartæki félagsins.

Sérfræðingar Piper benda á að deCODE hafi lokið við fasa 2 rannsókn á DG-041 hjartalyfinu og verði niðurstöðurnar kynntar á öðrum ársfjórðungi. Í greiningunni kemur fram bjartsýni á að lyfið geti reynst vel og telja þeir jafnvel að deCODE geti notað það til að taka inn nýtt fjármagn í reksturinn með því að efna til samstarfs við lyfjafyrirtæki um markaðssetningu þess.

Sömuleiðis er að vænta á ársfjórðungnum niðurstöðu úr fasa 1 tilraunum á DG-051 sem kemur í framhaldi af DG-031 og eru væntingar um að það geti komið í veg fyrir hjartaáföll í áhættuhópum. Þessar tilraunir meta áhættuþætti lyfsins og hvort því fylgi einhver eitrunaráhrif. Gögn úr forathugunum benda til bjartsýni segja sérfræðingar Piper. Félagið lenti í vandræðum með inntökuform lyfsins á síðasta ári en vinnur við að leysa það.

Þá er að vænta fyrsta CLIA greiningartækisins frá félaginu en því er ætlað að greina sykursýki tvö. Er gert ráð fyrir að heimild fyrir prófinu fáist á miðju ári og þá verði hægt að bjóða heimaprófun fyrir sjúklinga. Félagið er að útvíkka þessa hugmynd þannig að hún geti gagnast við fleiri sjúkdómum.