Fjármálafyrirtækið NordVest vinnur nú að skráningu bandaríska líftæknifyrirtækisins Cyntellect á icec-markaðinn í Kauphöll Íslands, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, og stendur til að skrá um 25% fyrirtækisins fyrir um 10-12 milljónir Bandaríkjadali, eða um 742-890 milljónir íslenskra króna. Heildarverðmæti fyrirtækisins er því rúmlega 3,5 milljarðar króna, miðað við efri mörk skráningargengis.

Talsmenn NordVest og Cyntellect, sem er með höfuðstöðvar sínar í Kaliforníu-fylki í Bandaríkjunum, vildu ekki tjá sig um skráningun að svo stöddu, en í nýlegu viðtali við Viðskiptablaðis sagði Jim Linton, framkvæmdastjóri félagsins, að Cyntellect væri að skoða möguleika sem fyrirtækinu standa opnir til að afla aukins fjár til frekari vaxtar.

Líftæknifyrirtæki hafa lækkað verulega í verði á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum síðustu ár en sérfræðingar, sem Viðskiptablaðið, hafði samband við, sögðu Cyntellect ólíkt flestum öðrum líftæknifyrirtækjum að því leyti að þróunarvinnan er að mestu að baki og fyrirtækið getur nú hafið sölu á afurðum sínum. Til samanburðar var síðasta gengi deCODE 7,25 dalir á hlut en fór hæst í 31,5 dali á hlut árið 2001.

Cyntellect framleiðir Leap, búnað sem gerir vísindamönnum kleift að skoða lifandi frumur með leysigeisla við lyfjaþróun. Linton sagði kostnað við lyfjaþróun mikinn og að með búnaðinum sé hægt að stytta þróunarferlið verulega þannig að miklu fyrr er hægt að meta árangur í þróunarferlinu. Leap-tækið kostar 500 þúsund Bandaríkjadali er markaðsetning þegar hafin og markhópurinn er stóru, alþjóðlegu lyfjafyrirtækin.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er lagt af stað með skráningargengið 2,5-3,0 Bandaríkjadalir á hlut, sem ætti að skila fyrirtækinu allt að 890 milljónum í kassann. Óformleg fjárfestakynning hefur þegar farið fram, segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins, og ólíkt öðrum sprotafyrirtækjum í líftæknigeiranum er fyrirtækið þegar farið að skila tekjum og búist er við að hagnaður verði af rekstri fyrirtækisins á næsta ári.

Cyntellct hefur þegar aflað 24 milljónum Bandaríkjadala og um helmingur þess er styrkur frá bandarísku ríkisstjórninni. Linton segir ástæðuna fyrir styrkveitingunni vera framsækin tækniframleiðsla fyrirtækisins. Íslenskir aðilar hafa nú þegar fjárfest verulega í fyrirtækinu, sem stofnað var af Bernharði Pálssyni, prófessor í lífverkfræði við Kaliforníuháskóla í San Diego, og Manfred R. Koller fyrir um sjö árum síðan.