Um 91 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í maí síðastliðnum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 24.300 fleiri en í maí á síðasta ári. Aukningin nemur 36,4% milli ára. Þetta kemur fram í tölum frá Ferðamálastofu .

Bandarískir ferðamenn stóðu undir meira en þriðjungi þessarar aukningar og fjölgaði þeim um níu þúsund eða 76% á milli ára. Samkvæmt talningu Túrista jókst flug á milli Íslands og Bandaríkjanna um 47% í síðasta mánuði og er það líklegasta skýringin fyrir þessari miklu fjölgun.

Þannig greinir Túristi frá því að í maí í fyrra hafi Icelandair verið eina flugfélagið sem bauð upp á áætlunarflug á milli landanna tveggja og samtals flugu vélar félagsins 218 sinnum frá Keflavík til bandarískra flugvalla. Nú buðu Wow air og Delta hins vegar einnig upp á flug til Bandaríkjanna, en félögin tvö bættu við 66 ferðum milli landanna í síðasta mánuði. Þá jókst einnig við flug Icelandair sem bauð nú upp á 321 ferð.