Svörtustu spár gera ráð fyrir að það hrikti í stoðum efnahagskerfis heimsins, ef matsfyrirtækið Standard & Poor's lækkar lánshæfiseinkunn Bandaríkjanna. Einkunninn er nú AAA en S&P breytti horfum á einkunn í gær vegna fjárlagahalla og hversu erfiðlega gengur að bregðast við miklum opinberum skuldum. S&P hefur aldrei áður sagt horfur á lánshæfi Bandaríkjanna neikvæðar.

Reuters fréttastofa fjallar um mögulegar afleiðingar lækkunar í dag og segir að almenningur í Bandaríkjunum muni finna fyrir breytingum. Talið er að dollarinn veikist í kjölfar slíkrar ákvörðunar og gæti komið af stað keðjuverkun sem hefur neikvæð áhrif á efnahagsbata heimsins. Reuters rifjar upp þegar Moody's matsfyrirtæki breytti horfum á lánshæfiseinkunn Japans árið 2008 í neikvæðar. Þá féll jenið og náði sínu lægsta gildi í sex ár. Að sama skapi féll skuldabréfaverð á bréfum ríkissjóðs Japans.

Viðbrögð við tilkynningu S&P voru nokkur á markaði í gær. Dollarinn styrktist þó gagnvart evru, sem er að mestu rakið til vaxandi áhyggja af skuldastöðu margra evruríkja.

Sérfræðingar sem Reuters ræða við lýsa yfir áhyggjum af húsnæðismarkaðinum, sem er enn afar brothættur. Lækkun á lánshæfismati gæti haft víðtæk áhrif, bæði á húsnæðismarkaðinn og bílaiðnaðinn.