Tækni íslenska fjártæknifyrirtækisins Memento er hryggjarstykki í nýrri bandarískri bankaþjónustu, Marygold&Co sem er í eigu sjóðsins Concierge Technologies. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Tæknilausnin sem Memento hefur þróað undanfarin ár auðveldar fyrirtækjum að setja upp app fyrir bankaþjónustu á stuttum tíma, ferli sem hefur áður tekið allt á annað ár. Concierge Technologies sjóðurinn vildi opna stafræna bankaþjónustu á einfaldan máta og á skömmum tíma, og varð tækni Memento fyrir valinu.

Tækni Memento tengir margar ólíkar fjármálaþjónstur í eitt viðmót. Í tilkynningu segir Arnar Jónsson, framkvæmdastjóri Memento, að með tækni fyrirtækisins fái fyrirtæki allan grunn sem þarf til gefa út bankaapp í einu kerfi og geta einbeitt sér að sambandi sínu við viðskiptavininn.

Þjónusta bandaríska bankans Marygold&Co er að öllu leyti stafræn og bankinn heldur ekki úti neinum útibúum heldur tekur á móti viðskiptavinum um öll Bandaríkin í gegnum appið sitt. Viðskiptavinir geta sent greiðslur sín á milli, sett upp sparnað og innleyst ávísanir á stafrænu formi. Bankaþjónustan er miðuð að þörfum ungs fólks sem vill leggja áherslu á sparnað og skynsamlegar ávöxtunarleiðir.

Memento var stofnað 2014 af Jóni Dal Kristbjörnssyni, Arnari Jónssyni og Gunnari Helga Gunnsteinssyni. Hjá fyrirtækinu starfa tíu manns og um hálfur milljarður hefur nú þegar verið settur í innviðafjárfestingu Memento síðan 2017.

Arnar Jónsson, framkvæmdastjóri Memento:

„Við höfum fylgst með breytingum í fjármálaumhverfinu í þó nokkur ár og reynt að greina hvert markaðurinn stefnir. Allt bankakerfið er að opnast og nýjar samkeppnislausnir eru að verða til. Áður fyrr voru eingöngu stórar fjármálastofnanir að sjá um fjármál fólks en nú eru nýjar notendavænni lausnir frá minni aðilum að verða til sem eru sérsniðnar að þörfum einstaka hópa. Í dag er orðið mun einfaldara fyrir fyrirtæki að fá bankaleyfi. Á dögunum voru gefnar út tvær bankalausnir sérsniðnar að þörfum LGBT samfélagsins í Bandaríkjunum en einnig eru fyrirtæki að gefa út bankaöpp fyrir starfsfólk sitt og viðskiptavini, má þar nefna Walmart."