Keðja íhlutaframleiðenda í bandaríska bílaiðnaðinum er við það að bresta samkvæmt frétt í The Detroit News í dag. Segir blaðið að fyrirtækin eigi ekkert lausafé og engin ákvörðun hafi verið tekin um beiðni þeirra um 18,5 milljarða dollara ríkisaðstoð á sama tíma og ógreiddir reikningar hlaðist upp. Ef þessi framleiðsla stöðvast geta stóru bílaverksmiðjurnar ekki lengur framleitt sína bíla.

Íhlutaframleiðendum í Bandaríkjunum hefur fækkað úr 20.000 árið 1990 í minna en 5.000 í dag. Þar vinna þó enn um 700.000 manns, en meirihluti þeirra starfa eru nú í mikilli hættu.

Næsta fyrirtæki til að fara á hliðina er að sögn The Detroit News, Visteon Village fyrirtækið í Michigan sem er í eigu Visteon Corp., eins stærsta íhlutaframleiðanda heims. Fyrirtækið skuldar um 19 milljónir dollara í skuldabréfum. Þá segir blaðið að hundruð smærri íhlutaframleiðenda geti verið á leið fyrir gjaldþrotadómstóla.

Alan Mulally forstjóri Ford segir fjárhagslega stöðu íhlutaframleiðenda vera mesta áhyggjuefni bílaframleiðenda í dag. Þeir ættu í þessum mánuði að vera fá greitt fyrir framleiðsluvörur sem afhentar voru í desember og janúar, en í þeim mánuðum lokuðu allir framleiðendur nema einn verksmiðjum sínum. Það þýðir að íhlutaframleiðendur fá litlar sem engar tekjur og geta því ekki staðið við sínar skuldbindingar.

Samkvæmt skýrslu ráðgjafafyrirtækisins Ducker Worldwide LLC verður velta íhlutaframleiðenda í mars ekki nema um fjórðungar af því sem var í lok síðasta árs sem þó var lélegt. Í dag eru tveir þriðju allra íhlutaframleiðenda með neikvæða lausafjárstöðu.

Vandi íhlutafyrirtækjanna hefur ekki eingöngu áhrif á framleiðslu bandarísku bílaframleiðendanna, heldur einnig á japanska framleiðendur sem eru með verksmiðjur í Bandaríkjunum.