Dómstóll í Fíladelfíu í Bandaríkjunum hafnaði í gær nýjum reglum sem settar voru í Bandaríkjunum í fyrra um eignarhald á fjölmiðlum. Nýju reglurnar juku mjög á frelsi fjölmiðlafyrirtækja til þess að stækka með fjárfestingum í öðrum fjölmiðlafyrirtækjum og mættu breytingarnar mikilli andstöðu þegar bandarísk stjórnvöld keyrðu þær í gegn í fyrra.

Umdeildustu breytingarnar snéru að því að hækka leyfilega hámarksmarkaðshlutdeild sjónvarpsfyrirtækja á landsvísu úr 35% upp í 45%. Óbreytt viðmið hefðu hins vegar leitt til þess að News Corp., sem á Fox sjónvarpsstöðina, og Viacom, sem á CBS sjónvarpsstöðina, hefðu þurft að selja eitthvað af smærri sjónvarpsstöðvum.

Nýju reglurnar felldu einnig úr gildi bann við því að sama fyrirtæki eigi bæði sjónvarpsstöð og dagblað á sama markaðssvæði.