Bandaríski fjárfestingasjóðurinn General Catalyst Partners hefur haft samband við hluthafa íslenska tölvuleikjaframleiðandans CCP og óskað eftir að kaupa fyrirtækið fyrir um fimm til sex milljarða króna, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Hilmar V. Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, staðfesti í samtali við blaðið að fjárfestingasjóðurinn hefði sýnt fyrirtækinu áhuga en neitaði að tjá sig frekar um málið.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að General Catalyst, sem er sjóður með fjárfestingagetu að virði 1,4 milljarðar dollara (106 milljarðar íslenskra króna), sé tilbúinn að greiða 500-600 krónur á hlut fyrir CCP. Fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar tók yfir 38% hlut fjárfestingafélagsins Brúar Venture Capital í CCP á genginu 180 krónur á hlut í mars síðastliðnum. Talsmaður Novators sagði bréf félagsins í CCP ekki til sölu

Sumir hluthafar í CCP eru ósáttir við hvernig Novator komst yfir bréfin, samkvæmt heimildum blaðsins, og benda á að félagið hafi nýtt sér tengsl við Straum-Burðarás, sem er móðurfélag Brúar. En talsmaður Novator fullyrðir að það hafi verið sjálfstæð ákvörðun stjórnar Brúar um að selja hlutinn þegar Novator gerði fyrirtækinu kauptilboð.

CCP, sem stofnað var 1997, framleiðir og selur fjölþátttökuleikinn EVE Online sem hleypt var af stokkunum í maí 2003. Á síðustu misserum hefur tekist að tryggja rekstrarstöðu félagsins, sérstaklega með mikilli fjölgun áskrifenda sem nú eru yfir 100 þúsund.

Fyrirtækið hefur hafið samstarf við kínverska fyrirtækið Optic Communications um að selja og þjónusta tölvuleikinn EVE Online í Kína.
Opnun leiksins í Kína kemur í kjölfarið mikils vaxtar tölvuleiksins í bæði Bandaríkjunum og Evrópu, samkvæmt upplýsingum frá CCP. Verið er að þýða leikinn yfir á þýsku og stefnir fyrirtækið á frekari þýðingar.

Fjárfestingasjóðurinn General Catalyst sérhæfir sig í fjárfestingum tæknifyrirtækja og hefur aðsetur í Cambridge í Massachusetts-fylki í Bandaríkjunum.