Enska fótboltaliðið Aston Villa tilkynnti í dag að félagið hefði samþykkt yfirtökuboð bandaríska auðkýfingsins Randolph Lerner.

Lerner er eigandi bandaríska fótboltaliðsins Cleveland Browns, en Lerner segir að Aston Villa hafi möguleika á að keppa í fremstu röð, bæði í ensku deildinni og í Evrópu.

Erlendir fjárfestar hafa verið að auka við sig í ensku knattspyrnudeildinni að undanförnu. Malcolm Glazer keypti Manchester United í fyrra, Roman Abromovich á Chelsea og Portsmouth er í eigu Milan Mandaric og Alexandre Gaydamak.

Fjárfestingafélag Lerner mun greiða 547 pens á hlut í Aston Villa og hljóðar því yfirtökuboðið upp á um 8,4 milljarða króna, en það er 47% hærra en gengi bréfa félagsins var þegar tilboðið var lagt fram, 16. september 2005.