Ormsson opnar á morgun, laugardaginn 8. ágúst, nýja Bang & Olufsen sérverslun inn í verslun  fyrirtækisins að Lágmúla 8. Um það bil 200 fermetrar af verslun Ormsson í Lágmúla hefur verið innréttuð sérstaklega fyrir hinar vönduðu og þekktu Bang & Olufsen vörur. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Hönnun verslunarinnar var í höndum hönnuða Bang & Olufsen og er ein af þeim fyrstu í heiminum samkvæmt þeirra nýjustu stöðlum. Það er búið að gera gagngerar breytingar á stórum hluta Ormsson verslunarinnar innréttingar, gólfefni, lýsing og húsgögn koma frá Bang & Olufsen og að sjálfsögðu öll vörulínan líka.

„Það er ánægjulegt að geta boðið aftur upp á Bang & Olufsen vörur á Íslandi og nú hér hjá okkur í Ormsson. Tækin frá Bang & Olufsen eru þekkt fyrir fallega hönnun og einstök hljómgæði,“ segir Valur Kristófersson, sölustjóri Bang & Olufsen hjá Ormsson.

Valur segist líka ánægður með að geta boðið Bang & Olufsen vörurnar á hagkvæmara verði en áður þekkist, sem meðal annars megi þakka lækkun á vörugjöldum sem tóku gildi um áramótin.

Á sama tíma og Ormsson opnar nýja verslun þá mun Ormsson einnig taka yfir alla þjónustu við eldri Bang og Olufsen tæki í þjónustuverkstæði sínu í Síðumúla 9.