Ríkisorkufyrirtæki Banglades hefur skrifað undir samning við Rússland um að þeir síðarnefndu byggi tvö 1.200 megavatta kjarnorkuver í landinu. Fjárfestingin nemur 12,65 milljörðum Bandaríkjadala.

Uppbygging kjarnorkuveranna mun hefjast snemma á næsta ári, um 160 kílómetra frá höfuðborginni Dhaka, sagði talsmaður vísinda- og tækniráðuneytis Bangladess.

Rússar munu fjármagna 90 prósent kostnaðarins á Libor + 1,75% vöxtum og mun Banglades borga lánið til baka innan 28 ára. Samkvæmt fjármálaráðherranum Abul Maal Abdul Muhith er þetta stærsta orkuverkefnið í sögu þjóðarinnar. Fyrra kjarnorkuverið á að opna árið 2022 og hið síðara ári seinna. Verin eiga að geta verið starfhæf í 60 ár auk þess sem mögulegt er að framlengja starfsemi þeirra um 20 ár.