Stjórn Icelandic Group hefur ákveðið að ráða Bank of America Merrill Lynch sem ráðgjafa  við mat á stefnu félagsins og þeim kostum sem félagið hefur í þeim efnum. Meðal þeirra kosta sem metnir verða er sala eigna úr samstæðunni og möguleikar á sölu á hlut í félaginu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Eins og greint hefur verið frá stendur til að selja erlenda starfsemi Icelandic Group. Mikið var fjallað um söluna í fjölmiðlum en Icelandic átti í viðræðum við fjárfestingasjóðinn Triton um kaup á erlendum hluta Icelandic. Þau kaup gengu ekki eftir. Icelandic Group er eitt af tíu stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum í heimi og rekur framleiðslu- og sölufyrirtæki í Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu.

„Stjórn Icelandic Group óskaði  þann 17. febrúar síðastliðinn eftir tilboðum í fyrirtækjaráðgjöf og var leitað til fjárfestingabanka með þekkingu og reynslu á alþjóðamörkuðum og sjávarútvegi.  Alls skiluðu fimm aðilar inn tilboðum. Eftir ítarlega yfirferð er það ákvörðun stjórnar að að ráða Bank of America Merrill Lynch sem ráðgjafa, en bankinn hefur starfað með stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum á heimsvísu við stefnumörkun og endurskipulagningu eigna.“