Bank of America hefur komist að samkomulagi um að greiða fimm aðilum sem var veitt ráðgjöf um að fjárfesta í Merrill Lynch alls 2,43 milljarða dollara, ríflega 300 milljarða króna. Um er að ræða áttundu stærstu sátt sögunnar, samkvæmt frétt Wall Street Journal sem fjallar um málið.

Samkomulagið þykir merki um að fjármálastofnanir glíma enn við fjármálakrísuna. Lögsóknir tengdar falli banka spanna nú um fjögur ár.

Þegar umrætt mál var lagt fyrir dómstóla hljóðaði skaðabótakrafan upp á samtals um 20 milljarða dollara. Málið var á dagskrá dómstóla í október. Bankinn hefur alla tíð neitað sök um að hafa afvegaleitt fjárfesta en féllst á að greiða ríflega 2 milljarða dollara til að láta málið niður falla.