Enn einn stórbankinn í Bandaríkjunum skilaði meiri hagnaði á öðrum ársfjórðungi þessa árs en gert hafði verið ráð fyrir. Hagnaður Bank of America skilaði fjögurra milljarða dala hagnaði á tímabilinu, andvirði um 480 milljarða króna, sem er 63% aukning frá sama tímabili í fyrra, að því er segir í frétt Financial Times.

Heildartekjur bankans jukust úr 22,2 milljörðum dala í fyrra í 22,9 milljarða dala í ár. Hagnaður á hlut nam 32 sentum, en í fyrra nam hagnaður á hlut 19 sentum. Sérfræðingar sem Bloomberg fréttastofan ræddi við höfðu gert ráð fyrir 25 senta hagnaði á hlut, eða um þriggja milljarða dala hagnaði.