Bank of America telur harða lendingu íslenska hagkerfisins ólíklega. Bankinn hefur uppfært álit sitt á Landsbankanum [ LAIS ] úr „selja“ í „hlutlaust“, en er áfram með „kaupa“-meðmæli fyrir Glitni [ GLB ] og „hlutlaust“ fyrir Kaupþing [ KAUP ].  Viðhorfið til íslensku bankanna er almennt nokkuð jákvætt. Þetta kemur fram í skýrslu sem Bank of America gaf út á aðfangadag.

Bank of America telur að nú sé byrjað að draga úr ójafnvægi í íslenska hagkerfinu með auknum álútflutningi og minnkandi framkvæmdum vegna uppbyggingar álvera. Vöruskiptahalli minnki ört og jákvætt sé að skuldir ríkisins hafi minnkað úr 38% af landsframleiðslu árið 2003 í 10% nú. Hins vegar séu erlendar skuldir þjóðarbúsins miklar og vöruskiptahallinn sömuleiðis.

Hækkað mat á Landsbanka

Bank of America hækkar mat sitt á Landsbankanum úr „selja“ í „hlutlaust“ og nefnir í því sambandi sterkan vöxt grunntekna, meiri rekstrarhagkvæmni, sterka lausafjárstöðu og hátt hlutfall innlána af útlánum. Í rökstuðningi er einnig nefnt að erlend starfsemi bankans hafi aukist og nú komi tæpur helmingur tekna að utan, auk þess sem skuldatryggingarálag bankans sé tiltölulega lágt miðað við keppinautana.

Nokkuð jákvæð skýrsla fyrir íslensku bankana

Í skýrslunni kemur fram nokkuð jákvætt viðhorf til allra stóru íslensku bankanna, Glitnis, Kaupþings og Landsbanka. Um þá segir Bank of America að þeir séu landfræðilega vel dreifðir með 40%-70% tekna og 40%-80% útlána utan Íslands. Þetta dregur verulega úr áhrifum hægara efnahagslífs eða samdráttar innanlands að sögn bankans. Þá er tekið fram að áhætta gagnvart bandarískum undirmálslánum sé lítil og ætti ekki að hafa mikil áhrif á afkomu fjórða ársfjórðungs. Loks nefnir Bank of America að lausafjárstaða íslensku bankanna sé þægileg, nýlegar útgáfur og bætt hlutfall útlána og innlána þýði að bankarnir hafi það lausafé sem þeir þurfi næstu tólf mánuði.