Bandaríski bankinn Bank of America áætlar nú að segja upp allt að 30 – 35 þúsund manns í kjölfar yfirtöku bankans á fjárfestingabankanum Merrill Lynch.

Ef af verður er þarna um að ræða um 11% starfsmanna en hjá sameiginlegum banka starfa um 308 þúsund manns.

Rekstur bankanna tveggja hefur gengið illa síðustu misseri og þá sérstaklega Merrill Lynch sem tilkynnti um 40 milljarða dala tap fyrstu níu mánuði ársins fyrir yfirtökuna. Gengið verður formlega frá yfirtökunni á nýju ári en sameiginlegur banki verður sá stærsti í Bandaríkjunum.

Samkvæmt tilkynningu Bank of America mun starfsfólki verða sagt upp úr báðum bönkum en nánar verður greint frá því í byrjun næsta árs.