Yfirtökuferli Bank of America á stærsta fasteignalánafyrirtæki Bandaríkjanna, Countrywide Financial er langt komið. Frá þessu greinir Wall Street Journal og hefur eftir heimildarmönnum innan bankans. Ekki liggur ljóst fyrir hvenær tilkynnt verður um yfirtöku bankans en að sögn heimildarmanna blaðsins má búast við því á næstu dögum, verði á annað borð af yfirtökunni.

Eins og vb.is hefur áður greint frá hefur Countrywide átt í miklum fjárhagserfiðleikum síðustu misseri. Orðrómi um að fyrirtækið yrði tekið til gjaldþrotaskipta var vísað frá af forsvarsmönnum bankans í vikunni.

WSJ greinir frá því að markaðsvirði Countrywide hafi minnkað um þrjá milljarða bandaríkjadala, sem samsvari um tveggja mánaða hagnaði Bank of America. Þegar fréttir af yfirtökunni bárust í gær hækkuðu hlutabréf í Countrywide um 51% en þau hafa lækkað um 39% í vikunni.

Bank of America keypti í ágúst s.l. hlutabréf í Countrywide fyrir um 2 milljarða bandaríkjadala til að hjálpa til við lausafjárvanda fyrirtækisins.

Talsmenn bankanna tveggja vildu ekki staðfesta þetta við fjölmiðla í gær þegar eftir því var leitað.