Bankaböðullinn Nick Leeson, sem bar ábyrgð á falli hins fornfræga fjárfestingarbanka Barings, hefur fengið nýja vinnu. Undanfarin þrettán ár hefur Leeson unnið fyrir sér sem fyrirlesari, þar sem hann hefur með skemmtilegum hætti farið yfir það hvernig hann náði að búa til gríðarlegt tap fyrir bankann og fela háttsemi sína fyrir yfirmönnunum.

Leeson hefur nú fengið vinnu hjá fyrirtækinu GDP Partnership á Írlandi og mun miðla málum milli banka og skuldara. Hlutverk hans hjá fyrirtækinu verður að sinna fyrirtækjum sem skulda meira en eina milljón evra, andvirði um 155 milljónum króna.

Í frétt Telegraph er haft eftir Leeson, sem búið hefur á Írlandi undanfarin tíu ár, að írskir bankar hafi verið hluti af vandanum vegna óábyrgra útlána og núna verði þeir að vera hluti af lausninni.