Hlutabréf evrópskra banka lækkuðu við opnun markaða í morgun. Hlutabréfaverð svissneska fjárfestingarbankans UBS, sem samþykkti í gær að kaupa Credit Suisse, hefur lækkað um meira en 4% það sem af er degi. Þá hefur gengi Credit Suisse lækkað um 60%.

Hlutabréfaverð stórra evrópskra banka á borð við BNP Paribas, Societe Generale, Deutsche Bank og Commerzbank hafa lækkað dag um meira en 1% í dag. Þrátt fyrir það hefur Europe Stoxx 600 vísitalan hækkað um 0,4% það sem af er degi.

Úrvalsvísitalan hefur lækkað um meira en 1% í morgun. Ölgerðin hefur lækkað mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 4,3% sem má rekja að hluta til hækkunar á föstudaginn við uppfærslu íslenska markaðarins hjá FTSE Russell. Gengi Íslandsbanka hefur falliði um 2,2% og Arion um 1,1%.

Hlutabréf asískra banka lækkuðu í morgun. Hang Seng vísitalan, sem fylgir félögum á Hong Kong hlutabréfamarkaðnum, lækkaði um 2,7%, japanska Nikkeei 225 lækkaði um 1,4% og kínverska SSE vísitalan lækkaði um hálft prósent.