„Í raun og veru er mælingin á traustinu gagnvart Alþingi í samræmi við þær mælingar sem hafa átt sér stað á síðustu árum,“ segir Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis.

Könnun sem Félagsvísindastofnun gerði á trausti til Alþingis og var kynnt í morgun sýnir að aðeins 14% svarenda sögðust bera traust til Alþingis en 76% sögðust bera lítið eða alls ekkert traust til þess. Ástæðurnar eru meðal annars samskiptamáti og framkoma þingmanna hver við annan, röng forgangsröðun þingmála og ómálefnaleg umræða á þingi með málþófi og ómarkvissri umræðu.

Einar Kristinn bendir á að eftir efnahagshrunið hafi traustið á Alþingi dvínað mikið. „Menn verða að gera sér grein fyrir því að þessi mál verða ekki rædd nema í samhengi við það sem hefur verið að gerast,“ segir hann.

„Augljóst sé á svörum fólk að það sé ekki ánægt með það hvernig tekið hefur verið á málum. „Fólk er að kalla eftir aðgerðum,“ segir hann. Almenningur telji að Alþingi og stjórnvöld hafi ekki verið að fjalla um brýnustu úrlausnarefnin.

Einar segir það jákvætt að fólk sýni Alþingi sem stofnun traust og véfengi ekki mikilvægi hennar, þótt traustið gagnvart þingmönnunum sjálfum sé ekki eins mikið. Hann nefnir þrennt sem hægt væri að gera til að bregðast við könnuninni.

„Fyrst er það, sem snýr beint að mér sem forseta, og eftir atvikum forsætisnefnd, og það er að við höldum áfram þeirri endurskoðun á þingskopum sem var byrjað á síðasta þingi,“ segir hann. Einhugur hafi verið um það á fundi forsætisnefndar á fundi í gær að halda þeirri vinnu áfram.

„Í annan stað eru þá hlutir sem Alþingi og stjórnvöld þurfa að horfa til og það er forgangsröðun sem fólk telur að hafi verið röng og ekki í samræmi við vilja almennings,“ segir hann. Með þessu sé hægt að bregðast við gagnrýnisröddum.

„Loks er það ýmislegt sem þarna er nefnt eins og framkoma þingmann, orðfæri og þess háttar sem þingmenn verða hver um sig að læra af,“ segir Einar. Það hafi þess vegna verið mjög mikilvægt að þingmenn sem hann hafi rætt við hafi sýnt því mjög mikinn áhuga að taka þetta mál upp í sínum þingflokkum.

Einar segir niðurstöður könnunarinnar benda til þess að viðhorf fólks séu misjöfn eftir því hvort fólk er fylgjendur ríkisstjórnarinnar eða styðji stjórnarandstöðunnar. Staða ríkisstjórnarinnar hafi verið slæm í skoðanakönnunum á þeim tíma sem könnunin hafi verið gerð og það skýri niðurstöðurnar að hluta.