Íslenska bankaútrásin í Skandinavíu hefur mætt nokkuð óvæntum mótbyr sem hefur verið að koma skýrar upp á yfirborðið á síðustu mánuðum. Þessi mótbyr birtist í neikvæðu viðhorfi landanna í Skandinavíu gagnvart getu íslenskra fjármálafyrirtækja á yfirtökum þarlendra fjármálafyrirtækja. Skandinavískir fjölmiðlar hafa verið uppfullir af fréttum og umfjöllun síðustu mánuði þar sem því er velt upp hvernig þessi útrás sé fjármögnuð og þá gripið til þess að skýra hana með því að hér sitji menn sem hreinlega prenti peninga eða kaupin séu fjármögnuð með illa fengnu fé frá Rússlandi.

Nú í síðustu viku hélt norski prófessorinn Thore Johnsen því fram í Dagens Næringsliv að lítið þurfi út af að bregða til að íslenska bankakerfið hrynji eins og spilaborg. Þessu hefur einnig verið haldið fram í dönskum fjölmiðlum og verður þessi umræða að teljast byggð á mjög hæpnum forsendum og upphrópunum. Flestir þeir aðilar sem fylgjast grannt með íslensku bankakerfi eins og alþjóðleg matsfyrirtæki, Seðlabanki Íslands og eftirlitsaðilar deila ekki þessum skoðunum með frændum okkar. Þrátt fyrir að hér séu eignamarkaðir þandir vel og útlánaaukning mikil telur segir Seðlabanki Íslands í nýlegri úttekt sinni á íslenska fjármálakerfinu að það sé í meginatriðum traust og sé ágætlega í stakk búið til að taka við niðursveiflunni þegar hún kemur án þess að verða fyrir miklum skakkaföllum. Lánshæfismatsfyrirtæki eru einnig tiltölulega jákvæð gagnvart fjárhagslegri stöðu viðskiptabankanna og segja hana í meginatriðum trausta. Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag.