Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað í gær, miðvikudag, að lækka stýrivexti bankans um 0,5%. Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði að margt jákvætt hafi gerst síðan á síðasta ákvörðunardegi. Gengi hafi styrkst og verðbólga minnkað. Hinsvegar hefði verið hægt að ganga lengra í lækkun vaxta ef ekki væri fyrir þá óvissu sem dómar Hæstaréttar sköpuðu. Bankakerfið stendur ekki undir þeim vöxtum sem gengistryggð lán bera.

Á fundi Seðlabankans, þar sem stýrivaxtaákvörðunin var rökstudd, sagði Már að niðurstaða Hæstaréttar hafi ekki komið Seðlabankanum á óvart og að bannið við gengistryggingunni sé ekki vandamálið "heldur óvissan um það sem við kann að taka. Ef niðurstaðan verður sú, og ég vona að svo verði ekki, að þessi lán verði greidd til baka á samningsvöxtum en ekki óverðtryggðum vöxtum Seðlabankans eða Reibor-vöxtum þá mun bankakerfið ekki vera í stakk búið til að fjármagna þann endurbata sem hér þarf að eiga sér stað".

-Nánar í Viðskiptablaðinu