Ásgeir Jónsson telur að endurupptaka 2% sveiflujöfnunarauka, sem tekur gildi 1. september, sé mikilvæg til að tryggja að bankarnir leggi peninga til hliðar. Þetta kom fram á fundi fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands nú í morgun.

Ásgeir segir að bankakerfið líti mjög vel út og að staðan hafi aldrei verið jafn sterk frá fjármálahruni 2008. „Þær aðgerðir sem við gripum til í kjölfar faraldursins þar sem við jukum lausafé í umferð, hefur valdið því að bankakerfið hefur stækkað og náð miklu meiri hagkvæmni," segir Ásgeir og bætir við að það sé mikilvægt að setja fram ákveðna stefnumörkun varðandi bankakerfið.

„Það er ákveðin stefnumörkun fyrir okkur að hafa bankakerfi sem er með mikið eigið fé og innlán, og sé ekki að fara í markaðsfjármögnun sem var tíðkuð mikið hér á árum áður," og segir Ásgeir bankakerfið þannig vera öruggara.

Gunnar Jakobsson, aðstoðarseðlabankastjóri sagði það vera áfram til skoðunar hjá bankanum hvert hlutlaust gildi sveiflujöfnunaraukans skuli vera. Hann segir hagkerfið og áhættuna í bankakerfinu nálgast það sem var fyrir faraldurinn og því eðlilegt að fara aftur í 2% sveiflujöfnunarauka.