Einungis þrír nýir bankar hafa verið opnaðir í Bandaríkjunum frá árinu 2010. Fyrir árið 2008 voru yfir 100 nýir bankar opnaðir á ári að meðaltali og því er um verulegan samdrátt að ræða í bankakerfinu. Nýir bankar eru oft taldir merki um hraustan efnahag og góða samkeppni, en svo er ekki lengur. Sérfræðingar telja að Dodd- Frank reglugerðin sem var sett á árið 2010 til að koma í veg fyrir annað efnahagshrun sé meðal ástæðna þess. Meðal þess sem reglugerðin fól í sér voru reglur um að bankar ættu að eiga meira laust fé og takmörkun á útlánum. Þetta hefur leitt til þess að erfiðara er fyrir banka að hagnast á starfseminni.

Ákvörðun Seðlabanka Bandaríkjanna að halda vöxtum mjög lágum hefur einnig gert nýjum bönkum erfiðara fyrir að hagnast. Nýjum bankaútibúum hefur einnig fækkað verulega. Frá 1990 til 2007 opnuðu bankar um 500 útibú á ári, en frá 2010 hefur sú tala lækkað í undir 300.