„Þetta mál fór alla leið og var rannsakað að fullu. Það þurfti að finna skýringar á þessum greiðslum og það leit út fyrir að eitthvað refsivert hafi átt sér stað,“ segir Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari hjá embætti sérstaks saksóknara. Hún rannsakaði mál fimm fyrrverandi stjórnenda hjá gamla Landsbankanum vegna gruns um skilasvik í tengslum við miillifærslu á tæplega 20 milljörðum króna af reikningi Landsbankans í Seðlabankanum yfir til MP banka og Straums vegna endurhverfra viðskipta við Seðlabankann og kaupa bankans á verðbréfum í sjóðum Landsvaka eftir lokun sjóðanna. Millifærslurnar voru taldar hafa átt sér stað 6. október árið 2008. Daginn eftir tók skilanefnd yfir rekstur bankans.

Embættið hefur fellt rannsóknina niður og fengu sakborningar í málinu bréf þessa efnis 4. nóvember síðastliðinn. Eins og fram kom í umfjöllun VB.is um málið í dag réðst embætti sérstaks saksóknara í húsleit vegna málsins í janúar árið 2011. Fjórir af mönnunum fimm voru handteknir. Mennirnir voru færðir til yfirheyrslu en þurftu ekki að sæta gæsluvarðhaldi.

Mennirnir fimm eru Jón Þorsteinn Oddleifsson, fyrrverandi forstöðumaður fjárstýringar bankans, Þórir Örn Ingólfsson, fyrrverandi forstöðumaður áhættustýringar, Hannes Júlíus Hafstein, fyrrverandi deildarstjóri fjárfestingarbanka á lögfræðisviði bankans, og Stefán Héðinn Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri eignarstýringar Landsbankans. Þá var Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, sömuleiðis til rannsóknar í tengslum við málið.

Arnþrúður segir í samtali við vb.is að eftir mikla yfirferð hafi verið tekið það mat sem alltaf er gert á grundvelli 145. greinar laga um í meðferð sakamála hvort gefa eigi út ákæru eða ekki. Misjafnt er hversu langt rannsókn gengur í þeim málum sem eru til skoðunar hjá embættinu, rannsóknum er hætt á ýmsum stigum og en gefin út ákæra í öðrum.

„Þegar farið var yfir málið, gögn þess og framburði þá var það ekki talið líklegt til sakfellis. Þá vorum við að horfa til efnisskilyrða í ákvæðunum, þau skilyrði sem þarf að uppfylla og afstöðu viðkomandi aðila. Þegar allt var metið heilstætt þá var það talið ekki líklegt til sakfellis og því ákveðið að fella málið niður,“ segir hún.