Miklar framfarir eiga sér stað í greiðslumiðlun milli landa – og innan þeirra landa þar sem fjármálalegir innviðir hafa verið veikir eða hreinlega ekki til staðar – þessa dagana. Alþjóðlegir tæknirisar keppast nú um að setja á fót greiðslulausnir fyrir notendur sína og viðskiptavini, enda í einstakri stöðu til að veita alls kyns fjármálaþjónustu til notenda um allan heim, þvert á landamæri.

Tæknirisarnir Google, Facebook, Apple, Amazon og Uber eru allir búnir að koma sér vel fyrir á toppi síns sviðs, hver um sig. Þar hafa þeir aðgang að gríðarlegu magni upplýsinga um hundruð milljóna eða milljarða notenda, sem nota má til að sérsníða fjármálaþjónustu að hverjum og einum, og skera úr um lánshæfi. Útbreiðsla tækja þeirra og hugbúnaðar gerir öruggar millifærslur hvert sem er í heiminum innan þeirra kerfa auk þess auðveldar, svo notendur geta séð um öll sín fjármál hjá þeim.

Kynna greiðslulausnir hver á fætur öðrum
Netverslunarrisinn Amazon hefur verið að veita litlum fyrirtækjum allt að 100 milljóna króna lán frá 2011, og boðið upp á kreditkort síðan 2017. Viðræður eru sagðar hafa átt sér stað á fyrri hluta síðasta árs við stóra banka um að bjóða upp á bankareikninga, en Amazon hafi fallið frá slíkum hugmyndum stuttu síðar.

Af hinum risunum reið Apple á vaðið í mars og kynnti nýtt kreditkort í samstarfi við Goldman Sachs bankann. Deilibílaþjónustan Uber bætti hins vegar um betur í lok síðasta mánaðar og kynnti Uber Money, samansafn ýmiss konar fjármálaþjónustu, þar sem miðpunktur verður bankareikningur.

Facebook kynnti Facebook Pay svo um miðjan mánuðinn. Í því felst uppfærsla á og viðbót við greiðslulausn sem þegar hafði verið í boði. Ekki er þó um eiginlegan bankareikning að ræða, heldur þarf að tengja kort eða aðra greiðsluleið við kerfið. Tveimur dögum seinna tilkynnti Google að það hygðist bjóða upp á bankareikninga í samstarfi við bandaríska bankann Citigroup.

Haft var eftir sérfræðingi í samtali við BBC að þótt hinar nýkynntu fjármálaþjónustuleiðir tæknirisanna væru um margt ólíkar, væri endanlegt markmið með þeim öllum hið sama: að gera viðkomandi fyrirtæki ómissandi í daglegu lífi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .