Starfsmönnum banka og sparisjóða hefur fækkað um 2.000 frá árinu 2007. Í umfjöllun Morgunblaðsins um fækkun starfsfólk banka segir að vísbendingar séu uppi um að gervigreind og aukin notkun sjálfvirkni eigi þátt í fækkun starfa í bönkum á Íslandi.

Í samtali við Morgunblaðið bendir Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri SFF, á að árið 2007 hafi efnahagsreikningur bankanna verið sem samsvarar tífaldri landsframleiðslu en sé í dag eitthvað rétt undir 150% af landsframleiðslu.

Framkvæmdastjórinn segir að aukin sjálvfvirkni geti átt einhvern þátt í fækkun starfa í bankakerfinu og bendir á að gjaldkerum hafi fækkað með notkun heimabanka og að starfsmenn hafi færst til í starfi.

Tæknibreytingar og fækkun bankafólks

Fyrir helgi fjallaði Viðskiptablaðið um ræðu John Cryan, bankastjóra Deutsche Bank, þar sem að hann tók fram að stór hluti starfsmanna bankans myndu missa starfið vegna tæknibreytinga og aukinnar tæknivæðingar á næstu árum.

Hann lét einnig þau ummæli falla að satt best að segja þyrftu bankar ekki svona margt fólk í þjónustustörf og að því þyrfti að leita til nýrra leiða til þess að ráða fólk. Þegar hann var inntur eftir svörum um hversu margir myndu missa vinnuna svaraði hann því einungis að stór hluti starfsmanna gæti tapað starfinu, en vildi ekki gefa nákvæma tölu. Hjá Deutsche Bank starfa um 100 þúsund manns um þessar mundir.