Þýski bankinn IKB, sem var einn þeirra fyrstu sem lentu í erfiðleikum vegna undirmálslánakrísunnar, sendi í dag frá sér afkomuviðvörun, að því er segir á Dow Jones fréttaveitunni. Stærsti eigandi IKB, bankinn KfW, sem kom IKB til bjargar í haust, mun nú leggja IKB til 450 milljónir evra. Gert er ráð fyrir um 800 milljóna evra tapi á yfirstandandi reikningsári, sem lýkur 31. mars nk.

Stærsti hluturinn var kominn í sölumeðferð

Dow Jones segir að þetta sé áfall fyrir KfW, sem hafi sett 43,4% hlut sinn í IKB í sölumeðferð og hafið áreiðanleikakönnun fyrir áhugasama fjárfesta sl. mánudag.

Þar sem markaðir hafa versnað gerir IKB nú ráð fyrir frekari niðurfærslu upp á 450 milljón evrur af 3 milljarða evra áhættusömu safni bankans. Hann gerir ennfremur ráð fyrir um 140 milljóna evra niðurfærslu af 2,8 milljarða evra safni með lægri áhættu.

Þar sem þessi niðurfærsla lækkar eigið fé IKB hefur KfW eins og áður segir fallist á að leggja honum til 450 milljónir evra í formi láns, sem bætist við 600 milljóna evra hlutafjárframlag sem samþykkt var í febrúar.

IKB gerir ráð fyrir engum eða mjög litlum hagnaði á næsta fjárhagsári.

Hlutabréfin lækka skarpt

Lokað var fyrir viðskipti með bréf IKB í morgun. Fyrir lokun höfðu bréfin lækkað um 2,6% en samkvæmt upplýsingum frá Financial Times Deutschland rétt í þessu höfðu bréfin skömmu eftir að opnað var fyrir viðskipti á nýjan leik lækkað um 14% frá því í lok gærdagsins.

FTD segir ennfremur að fram til þessa hafi ríki og bankar þegar lagt IKB til 9 milljarða evra.