Seðlabanki Argentínu hefur fyrirskipað HSBC-bankanum að skipta út forstjóra bankans í landinu innan næsta sólarhrings og segir að bankanum hafi mistekist að koma í veg fyrir skattaundanskot og peningaþvætti í starfsemi sinni innan landsins. BBC News greinir frá þessu.

Argentínsk stjórnvöld kærðu HSBC-bankann og stjórnendur hans í nóvember síðastliðnum fyrir að hada hjálpað fleiri en 4.000 viðskiptavinum sínum að skjóta undan skatti. Var bankinn sakaður um að hafa aðstoðað viðskiptavini við að fela fjármuni á bankareikningum í Sviss.

HSBC hefur hins vegar mótmælt kærunni og segist hafa fylgt lögum landsins í hvívetna. Hins vegar segir Seðlabanki Argentínu nú að forstjóra bankans hafi mistekist að innleiða starfshætti hjá bankanum sem komi í veg fyrir skattaundanskot og peningaþvætti, og því beri bankanum að skipta honum út innan næsta sólarhrings.