Í janúar síðastliðnum greindi Astoria Financial Corp. fjárfestum frá því að lán sem væru komin í vanskil hefðu aukist í 106 milljónir Bandaríkjadala í lok síðasta árs. Þremur mánuðum síðar sagði félagið að upphæðin væri aðeins 68 milljónir dala. Hvernig fór Astoria að þessu? Með því að breyta innri reglum sínum um hvenær fasteignalán eru skilgreind sem vanskil, segir í umfjöllun Wall Street Journal (WSJ). Fasteignalán eru nú talin vera í vanskilum þegar lántakandi hefur ekki greitt afborganir sínar þrjá mánuði í röð – í stað tveggja mánaða áður.

Að sögn Astoria var ráðist í þessar breytingar til að gera starfshætti félagsins meira í samræmi við það sem tíðkast hjá öðrum útlánaveitendum. En breytingin, segir í frétt WSJ, sýnir hins vegar hvernig bankar eru í auknum mæli farnir að reyna að breiða yfir hversu alvarlegur vandinn er á bandaríska húsnæðismarkaðnum. Slíkt skapandi bókhald er fullkomlega löglegt. Á hinn bóginn gætu aðgerðir af þessu tagi orðið til þess ýta undir tortryggni fjárfesta um raunverulega stöðu fjármálafyrirtækja – sem er varla á bætandi eftir að uppgjör síðustu fjórðunga hafa leitt í ljós að verulega hefur gengið á eigið fé þeirra samfara auknum afskriftum vegna útlánataps.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .