Hlutabréf lækkuðu töluvert í Evrópu í dag og voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins að sögn Reuters fréttastofunnar.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði um 2,3% sem er mesta lækkun vísitölunnar á einum degi í fimm vikur að sögn Reuters.

Markaðir lækkuðu jafnt og þétt í gegnum daginn en undir lok dags jókst lækkunin talsvert.

Eins og fyrr segir voru það bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins og lækkuðu töluvert. Þannig lækkaði Royal Bank of Scotland um 7%, en bankar á borð við UBS, Barclays, BNP Paribas, Societe Generale og Deutsche Bank lækkuðu allir á bilinu 4,6 – 6,8% í dag.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 1,6%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 1,3% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 2,5%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 2,6% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 1,5%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 1,6%, í Osló lækkaði OBX vísitalan um 1,4% og í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 2,4%.