Fjármálastofnanir verða sjálfar að leysa úr fjárhagsvandræðum sínum í stað þess að reiða sig á að helstu seðlabankar heimsins komi þeim til bjargar.

Þetta kemur fram í pistli sem Axel Weber, bankastjóri þýska seðlabankans og stjórnarmaður í Evrópska seðlabankanum, skrifaði í þýska dagblaðið Boersen-Zeitung.

Weber sagði að brýnasta vandamálið sem bankar stæðu frammi fyrir væru illseljanlegar eignir á bókum þeirra. Það myndi hins vegar skapa freistnivanda á fjármálamörkuðum ef bankar ætluðust til þess að seðlabankar leystu þetta vandamál með því að taka slíkar eignir á bækur sínar.

Weber sagði jafnframt að enda þótt það væru uppi vísbendingar um að ástandið á fjármálamörkuðum hefði að einhverju marki batnað, þá væri ástandið á peninga- og lánamörkuðum enn “erfitt.”

„Seðlabankar ættu að einblína á að tryggja verðstöðugleika. Það er ekki heppilegt að beita stýrivöxtum til að stemma stigu við miklum lækkunum á verðbréfamörkuðum,” segir Weber.