Bankarnir eiga að gera allt sem þeir geta til að bæta hag heimilanna og fara út fyrir það svigrúm sem afsláttur á lánasöfnum veitti þeim. Þetta segir Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra. Hann bendir á að bankakerfið sé enn of stórt og dýrt í rekstri. Frekari hagræðingar er þar þörf.

Afskriftir og afkoma bankanna var til umræðu á Alþingi í dag.

Það var Guðlaugur Þ. Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem hóf málið. Hann benti á að hagnaður bankanna markist af endurmati á lánasöfnum, ljóst sé að heimili og fyrirtæki landsins hafi greitt meira en búist var við af skuldbindingum sínum gagnvart bönkunum. Hann sagði hins vegar mikilvægt að skoða hvaða svigrúm bankarnir hafi til að koma til móts við viðskiptavini. Áreiðanlegar upplýsingar um þann afslátt sem nýju bankarnir fengu við kaup á lánasöfnum gömlu bankanna liggi ekki fyrir. Eitt svar hafi verið veitt á Alþingi, Seðlabankinn hafi annað og DV birt þriðja svarið.

„Almenna reglan er sú að svörin eru aldrei eins,“ sagði Guðlaugur og bætti við að hann hafi áhyggjur af því að Íslendingar séu á leið inn í japanskt ástand þar sem fólk greiðir vexti af lánum en safnar engu eigin fé. Guðlaugur hvatti jafnframt efnahags- og viðskiptaráðherra til að fá óháðan aðila til að fara fyrir eignatilfærsluna á milli gömlu bankanna og þeirra nýju.

Árni Páll Árnason sagði hagnaðartölur bankanna gefa skakka mynd af rekstri bankanna, í raun feli þær þá staðreynd að bankakerfið sé enn of dýrt og of óhagkvæmt. Brýnt þörf sé á hagræðingu. Fram kom í máli hans að bankarnir hafi 90 milljarða króna svigrúm til að leiðrétta skuldir heimilanna en svigrúm upp á 1.600 milljarða af fyrirtækjalánum. Nú sé svo komið að búið er að afskrifa 164 milljarða króna af skuldum heimilanna og 900 milljarða af fyrirtækjaskuldum. Þótt það sé næstum tvöfalt meira en svigrúmið hljóðar upp á þá verði bankarnir að gera betur. „Þeir eiga að kosta því sem þarf til,“ sagði Árni Páll og hvatti til þess að bankarnir flýti vinnu sinni.