Viðskiptablaðið ákvað að taka saman hvað mögulega væri hægt að fá fyrir ýmis fyrirtæki og eignir sem eru í eigu ríkisins en falla ekki undir kjarnastarfsemi þess. Niðurstaðan er sú að ríkið gæti selt eignir  fyrir 483,5-836 milljarða króna, m.v. forsendur sem Viðskiptablaðið styst við..

Bankar: Söluvænlegar eignir

Ríkissjóður á hlut í þremur bönkum. Langstærsti hlutinn er í Landsbankanum, en ríkið á 81,3% í honum. Til viðbótar er búist við því að 18,7% hlutur í bankanum, sem nú er í vörslu skilanefndar hans, muni líka renna til ríkisins.

Rekstur Landsbankans hefur gengið ágætlega eftir að hann var endurreistur og bankinn hagnaðist um 27,2 milljarða króna á síðasta ári. Eignir hans um síðustu áramót voru 1.081 milljarður króna og eigið fé 184,9 milljarðar króna. Ef miðað er við að fjárfestar séu tilbúnir að greiða eina krónu fyrir hverja krónu eiginfjár myndi sala á öllum Landsbankanum því skila ríkissjóði 184,9 milljörðum króna. Greiningaraðilar eru þó ekki á því að fjárfestar séu tilbúnir til slíks á meðan óvissa ríkir um stöðu bankanna, stærð bankakerfisins og stöðu alþjóðlegra fjármálamarkaða. Því vilja margir þeirra miða við 0,5 krónur fyrir hverja krónu eiginfjár, sem myndi skila ríkinu 92,5 milljörðum króna.

Vert er þó að taka fram að þessar tölur sýna stöðu Landsbankans áður en hann tók yfir SpKef. Samkvæmt mati Landsbankans þarf ríkið að leggja til 38 milljarða króna með þeirri sameiningu. Það yrði því að dragast frá væntanlegu söluverðmæti bankans fyrir ríkið.

Allt að 20 milljarða virði

Ríkið á líka 13% hlut í Arion banka. Heildareignir hans eru 812,6 milljarðar króna og eigið féð 109,5 milljarðar króna. Miðað við ofangefnar forsendur ætti sá hluti að geta skilað ríkinu 7,1-14,2 milljörðum króna í kassann. Að endingu á ríkissjóður síðan 5% hlut í Íslandsbanka. Heildareignir þess banka, sem er minnstur hinna þriggja stærstu, eru metnar á 683,2 milljarða króna í síðasta ársreikningi hans og eigið féð er 121,5 milljarðar króna. Ríkið ætti því að geta fengið 3-6 milljarða króna fyrir þennan eignarhlut sinn.

Sala á eignarhlutum í endurreistum bönkum: 102,6-205,1 milljarðar króna.

Nánar er fjallað um virði eigna hins opinbera í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.