*

sunnudagur, 25. júlí 2021
Innlent 3. september 2017 18:02

Bankar framtíðar

Gríðarlegar framfarir hafa verið í fjártækni á undanförnum árum og þær eru síst í rénun.

Andrés Magnússon

Það var hlegið að fjármálaráðherranum um daginn þegar hann stakk upp á því að Íslendingar létu megnið af reiðufé sínu af hendi og létu sér rafræna greiðslumiðla duga að mestu. Almennt voru landsmenn á því að enn væri rík þörf á reiðufé og gátu nefnt margvísleg dæmi um það. Auk þess kæra þeir sig sennilegast ekki heldur um meiri hnýsni hins opinbera í fjármunahreyfingar sínar en skatturinn og gjaldeyriseftirlitið ástundar í stórum stíl nú þegar, en um það snerust tillögur fjármálaráðherrans vitaskuld.

Hitt fór framhjá flestum í þeirri umræðu allri, að stærstur hluti greiðslumiðlunar á Íslandi er auðvitað fyrir löngu orðinn rafrænn. Menn fá launin sín með rafrænni millifærslu, nota millifærslur til þess að borga lán og reikninga og megnið af ráð- stöfunartekjunum og neyslunni bunast út með greiðslukortum. Sá háttur mun ekki minnka á næstunni.

Að miklu leyti ræðir þar þó aðeins um eðlilegan framgang þróunar, sem staðið hefur yfir í bráðum fjóra áratugi, en munurinn er helstur sá að netaðgangur varð almennur, fyrst á heimilum, svo í vasa hvers og eins. En stóra byltingin er rétt að hefjast og hún mun gerbreyta umhverfi viðskiptabankaþjónustu ekki síður en annarri fjármálaþjónustu.

Breyttir tímar

Vöxtur rafrænnar bankastarfsemi hefur aukist undrahratt síðustu misseri, aðallega í okkar þró- uðustu nágrannalöndum en hér á skeri hefur hennar einnig gætt, bæði í sprotum og gildari stoðum stóru bankanna.

Ávinningurinn er margvíslegur, en fyrst og síðast líta menn sjálfsagt til þæginda, öryggis og hraða. Ekki er langt síðan litið var á slíka „heimabankaþjónustu“ sem þjónustuauka við viðskiptavininn, en nú er hún og sambærileg þjónusta orðin grunnurinn. Enginn myndi opna reikning í banka, sem ekki hefði slíkt að bjóða, og líklega má fullyrða að enginn fari lengur í bankaútibú ótilneyddur.

Margháttað nýjabrum í fjártækni (e. fintech) mun aðeins ýta undir þessa þróun. Því til viðbótar má nefna margháttaðar aðrar breytingar á tækni og samfélagi. Hraðbankar sinna orðið víðar fleiri erindum en þeim einum að dæla út reiðufé og útprentun um stöðu og munu ugglaust valda enn frekari lokunum útibúa á komandi árum. Enn frekari áhrif verða svo vafalaust eftir því sem gervigreind fleygir fram og mennskir lánafulltrúar og þjónustufulltrúar verða óþarfa milliliðir við kúnnann. Sumt af því kann að þurfa að bíða þess að íslensk tungutækni verði almenn og nothæf, en þess er ekki langt að bíða.

Stóra byltingin 

Þar ræðir hins vegar aðeins um aðlögun gamla bankakerfisins að breyttum tímum. Eftir því sem fólk verður vanara að annast öll sín fjármál um snjallsímann, afhenda þeim systrum Siri og Alexu prókúruna, verður þörfin á hefðbundnum bönkum og útibúum æ óljósari. Um leið blasir við að þjónustan mun ekki aðeins batna og verða ódýrari, heldur einnig verða sérsniðnari að hverjum og einum. Það mun jafnt eiga við um fólk og fyrirtæki og sú þjónusta verður ekki einskorðuð við það sem í boði er hjá hverju fjármálafyrirtæki eða í hverju appi. Bak við verður kvikur markaður, sem í æ ríkari mæli mun hvíla á gervigreind.

Láttu ekki app úr hendi sleppa 

Engum blöðum er um það að fletta að almenningur er reiðubúinn í  þessa byltingu. Það sést ekki aðeins á útbreiðslu hefðbundinna banka-appa, heldur kannski ekki síður á því hvernig greiðslumiðlun til hliðar við bankakerfið hefur einnig tekið við sér. Öpp á borð við Venmo og Transferwise eru ekki aðeins vinsæl ein og sér (og sum þurfa ekki meira en gemsanúmer til þess að borga inn á, engar upplýsingar um notendur eða reikninga þeirra), heldur eru þau farin að láta á sér kræla inni í skilaboðaöppum á borð við iMessage, Facebook Messenger og Whatsapp.

Í sama mund hefur Apple Pay náð undraverðum árangri í útbreiðslu greiðslumiðlunar, sem er mun öruggari en hefðbundin kortanotkun, og sennilega mun Samsung Pay verða álíka ágengt er fram í sækir. Kæmi einhverjum á óvart þó að þessir risar vildu ganga lengra í fjármálaþjónustu?

Til þessa hefur mátt skipta fjártækninni í grófum dráttum í þrjá hópa: greiðslumiðlun, lánastarfsemi og persónulega fjármálaþjónustu. Fjártæknin hefur beinst sérstaklega að þeim geirum fjármála, vegna þess að þar má með tiltölulega auðveldum hætti lækka (eða fella niður) þjónustugjöld og koma á einföldu en tryggu viðskiptasambandi með rafrænum hætti.

Tæknin mun gera alla þessa hópa fjártækni betri, skilvirkari og ábátasamari. Eins er talsvert eftir í vöruþróun og markaðssetningu á ýmsum sviðum, en aukin sjálfvirkni mun opna hinum blankari ýmsa kosti, sem til þessa hafa aðeins staðið hinum betur stæðu til boða. Á þeim vettvangi er vextinum hins vegar takmörk sett og því ýmis teikn á lofti um að senn gefi að líta fullkomlega nýjar fjármálaafurðir, sem eru skilgetin afkvæmi hinnar nýju aldar vélvirkni.

Bálkakeðjur

Lengst af hefur það nokkuð haldið aftur af samkeppni á fjármálamarkaði, að startgjaldið er tiltölulega hátt, starfsemin háð nokkuð ströngum skilyrðum og eftirliti og síðan er það nú einu sinni þannig að hið mjög svo óáþreifanlega traust gefur þeim bönkum, sem fyrir eru (jafnvel þessum íslensku!) forskot á nýliða á markaðnum. Jafnvel þetta kann að vera að breytast.

Bálkakeðjutæknin (e. blockchain) er í þann veginn að umbylta ótal mörgu í viðskiptum og samfélagi, en það er á fjármálamarkaði, þar sem hún mun mestu breyta næsta kastið.

Bálkakeðjur eru grunntækninsem rafmyntin Bitcoin er reist á, en þær eru dreifð og tímaröðuð færsluskrá, sem er aðgengileg öllum og geymd í heild sinni. Tæknin er í eðli sínu mun hraðvirkari, skilvirkari, öruggari og síður hætt við villum en hefðbundnar greiðslujöfnunaraðferðir. Hún mun einnig brjóta niður samkeppnismúra milli landa, nema ríki vilji sérstaklega viðhalda þeim. Ekki nóg með það, heldur gerir hún svonefnda snjallsamninga mögulega, þar sem venjulegir neytendur geta skipst á peningum, verðbréfum og eignum með öruggum hætti án þess að nokkur fjármálastofnun hafi meðalgöngu um eða taki þóknun fyrir. Líkt og tíðkast í hefðbundnum samningum eru skilmálar og viðurlög tiltekin í snjallsamningum, en hið besta er að snjallsamningurinn framfylgir þeim sjálfur og sjálfkrafa, án þess að aðilar þurfi að leita ásjár dómstóla eða annarra yfirvalda. Þar ræðir mögulega um stórkostlegustu framför í sögu eignaréttarins og hún mun breyta fjármálaumhverfinu verulega og varanlega.

Af þessum ástæðum er ekki óvarlegt að gera ráð fyrir því að bankar framtíðarinnar verði flestir rafrænir, bæði með hefðbundna bankaþjónustu og nýjungakenndari, þar sem menn nota bæði hefðbundna gjaldmiðla og rafmyntir.

Það mun auðvitað ekki breyta því að menn munu áfram vilja getað notað einhverskonar reiðufé, líka nafnlaust og órekjanlegt. En það er ekkert sem segir að það geti ekki verið rafrænt líka og í sjálfu sér ekki rík nauðsyn á að það sé mælt í krónum eða evrum, svo það má vel vera að draumur Bensa um seðlalaust Ísland rætist. Bara öðru vísi en fjármálaráðuneytið helst vildi. Ríkisvaldið þarf því að undirbúa sig undir framtíðina ekki síður en bankarnir og neytendur.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

Stikkorð: bankar Tækni framtíðin