Verktakar hafa að undanförnu rekið sig á að bankar hafa hækkað kröfu um eiginfjárhlutfall í byggingaframkvæmdum og farið fram á að eigið féð sé lagt fram fyrr í framkvæmdaferlinu. Arion banki segist með þessu vera að bregðast við breyttri stöðu hagkerfisins og samsetningu lánasafns bankans.

Friðrik Ólafsson, viðskiptastjóri byggingariðnaðar hjá Samtökum iðnaðarins (SI), segir félagsmenn SI hafa vakið máls á breytingunum við samtökin. Áhrifin eru nokkuð misjöfn eftir stöðu verktaka. Nýir aðilar, með minna eigið fé milli handanna, geti þurft að byrja á smærri verkefnum en áhrifin á stærri verktakafyrirtæki með meiri reynslu og sterkari fjárhagsstöðu séu minni.

„Það er auðvitað talsvert að þurfa að leggja fram 30% af 600 til 700 milljónum króna. En þá má alveg velta fyrir sér hvort ekki megi byrja smærra,“ segir Friðrik.

Vilji hindra sömu mistök og fyrir hrun

„Bankarnir vilja koma í veg fyrir það sem gerðist á árunum 2006 og 2007 þegar nýútskrifaðir eða jafnvel ófaglærðir voru að byggja fjölbýlishús án þess að hafa næga þekkingu eða reynslu til þess. Að því leyti skilur maður fjármálastofnanir,“ segir Friðrik.

Íslandsbanki bendir á að algengt sé að tvö ár líði frá því að ákvörðun um lán er tekin þar til íbúðir fari í sölu. Því sé mikilvægt að fjárhagsstaða verktaka sé góð og þekking þeirra og reynsla sé fullnægjandi.

„Á þeim tíma geta orðið verulegar breytingar á efnahagsástandi ásamt framboði og eftirspurn og þar af leiðandi seljanleika og söluverði eigna. Ákvörðun um lánveitingu er því háð mati á því hvernig aðstæður verði að nokkrum árum liðnum og fara kröfur bankans eftir því. Bankinn hefur leitast við að vera varkár í sínu mati og er það enn,“ segir í svari Íslandsbanka við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.

Hlutfall útlána til fasteignaverkefna hækkað

Arion banki segist með hærri eiginfjárkröfu vilja draga úr áhættu tengdri fasteignaverkefnum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .