Freistnivandi í fjármálakerfi Bandaríkjanna er umfangsmikill og djúpur, að mati Philip Booth, prófessors í tryggingafræðum og áhættustýringu við Cass Business School í London. Hann flytur í dag fyrirlestur sem ber heitið „Raunverulegar orsakir fjármálakreppunnar.“ Að fyrirlestrinum standa viðskiptafræðideild HÍ og Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt.

Ein birtingarmynd þessa freistnivanda er að sögn Booth sú staðreynd að bandarískir viðskiptabankar njóta innstæðutryggingar sem er með ábyrgð ríkisins, en fyrir þessa tryggingu greiða þeir ekkert iðgjald. Hann segir að samkvæmt bókinni hefðu bankar átt að greiða inn í tryggingasjóðinn greiðslur sem tækju mið af áhættu, en því var ekki fylgt. Þá segir hann að síendurteknar björgunaraðgerðir gagnvart bandarískum bönkum hafi dregið mjög úr eðlilegu áhættumati stjórnenda slíkra fyrirtækja.

Hann segir að ef fjármálakerfið er byggt á slíkum ábyrgðum og tryggingum sé fólk, þar á meðal innstæðueigendur, einangrað frá afleiðingum eigin ákvarðana. Þetta leiði til þess að fólk tekur meiri áhættu vegna þess að kostnaði við tap er dreift á marga.