Talsmenn stóru viðskiptabankanna telja víst að bankaskattur sem stjórnvöld leggja á þá muni á endanum lenda á viðskiptavinum þeirra með einum eða öðrum hætti. VIð hækkun bankaskattsins hækka álögur á Landsbankann úr 400 milljónum króna í rúma þrjá milljarða, Arion banki þarf að greiða 2,9 milljarða í stað 322 milljóna og Íslandsbanki 2,6 milljarða.

Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans segir í samtali við Kjarnann hækkun bankaskattsins jafngilda allri þeirri rekstrarhagræðingu sem náðst hafi innan bankans í fyrra. Það hafi tekist með gríðarlegu aðhaldi. Ljóst sé að sparnaðurinn fari í að greiða bankaskattinn.

Fram kemur í Kjarnanum að Arion banki hafi þegar ráðist í hækkun á útlánavöxtum í þessum mánuði með hækkun á vexti íbúðalána. Þá hefur Íslandsbanki tilkynnt að hann lækka innlánsvexti á nokkrum reikningum 21. febrúar næstkomandi. Breytingarnar eru á bilinu 0,05 til 0,1 prósent á óverðtryggðum sparireikningum og 0,2 prósent á tékkareikningum.