Vegvísir Landsbankans segir frá því að álag á Libor vexti á millibankamarkaði hafi hækkað á þessu ári sem gefi til kynna að bankar haldi fastar í lausafé og séu tregari til að lána hver öðrum Bandaríkjadali en oft áður.

„Álagið - svokallað Libor-OIS álag - er skilgreint sem munur á Libor vöxtum til ákveðins tíma og daglegum vöxtum fyrir næturinnlegg í seðlabanka samkvæmt framvirkum samningum (overnight index swap - OIS) til sama tíma,“ segir í Vegvísinum.

Bloomberg fréttaveitan greinir frá því að  líkur séu á að álagið komi til með að hækka frekar á komandi mánuðum þar sem bankar í Bandaríkjunum eigi eftir að endurfjármagna skuldir að verðmæti 88 milljörðum Bandaríkjadala í desember. Þeir hafi því ástæðu til að halda í það lausafé sem býðst.

Vegvísir Landsbankans segir álag á þriggja mánaða vexti vera mjög hátt í sögulegum samanburði.

„Fram til ágúst 2007 var 10 ára meðalálag 11 punktar en nú er álagið 78 punktar og útlit fyrir að það fari í 85 punkta um miðjan desember samkvæmt stöðu framvirkra samninga,“ segir í Vegvísinum.

Þar segir jafnframt að Alan Greenspan, fyrrum seðlabankastjóri Bandaríkjanna, hafi sagt að álagið þurfi að fara undir 25 punkta til að segja megi að lausafjárkreppan sé liðin hjá. Það hafi náðs í einn dag í janúar þegar markaðurinn jafnaði sig eftir óvænta 75 punkta stýrivaxtalækkun í Bandaríkjunum.

Ef litið er til þessa þá verður ekki séð að yfirstandandi lausafjárkreppa verði yfirstaðin fyrr en í fyrsta lagi um miðbik ársins 2010.