Bankar í Evrópu eru orðnir óþolinmóðir gagnvart fjárfestingafélögum, sem eiga erfitt með að standa undir mikilli skuldsetningu, og eru farnir að taka yfir fyrirtæki í eigu þessara fjárfestingarfélaga.

Þar til nýlega sættu flestir bankar sig við að taka á sig tap af lánunum og létu þeim sem höfðu keypt fyrirtækin það eftir að reka þau. Í kjölfar mikilla afskrifta hafa bankar breytt um stefnu og eru nú reiðubúnir til að setja inn fjármagn í fyrirtæki í eigu fjárfestingarfélaga og taka þau yfir.

Þetta kemur fram í WSJ þar sem tekið er dæmi af Danske Bank sem hafi í liðnum mánuði tekið yfir Addici Holding, sænskt fyrirtæki í eigu Argan Capital, í því skyni að verja ríflega 79 milljóna dala lánveitingu sína. Haft er eftir meðeiganda hjá KPMG Private Equity Group að bankarnir séu ekki lengur reiðubúnir til að taka á sig miklar afskriftir og reki þá stefnu af nokkurri hörku.