Grískur embættismaður hefur viðurkennt að ólíklegt sé að bankar í Grikklandi muni geta opnað í þessari viku, þrátt fyrir að vilyrði hafi áður verið gefin um að bankarnir myndu opna á morgun. New York Times greinir frá þessu. Skortur á reiðufé, seðlum og mynt vofir nú yfir grísku samfélagi.

Samningafundur leiðtoga evruríkjanna stendur nú yfir í Brussel og er niðurstöðu fundarins beðið í ofvæni. Evran hefur ekki verið veikari gagnvart dollara í fimm vikur og evrópsk hlutabréf féllu duglega í verði eftir hádegi í dag. Lækkunin er rakin til áhyggna af lélegu gengi samningaviðræðnanna, en fréttir þess efnis bárust nú síðdegis.

Ávöxtunarkrafa þýskra ríkisskuldabréfa til 10 ára lækkaði um 0,14% í dag og stendur nú í 0,65%. Wall Street Journal hefur eftir gjaldeyrismiðlara hjá Barcleys að smám saman sé að renna upp fyrir fjárfestum að fólk þurfi að gera sér grein fyrir afleiðingunum muni Grikkir raunverulega ganga úr evrusamstarfinu.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, ræddi við Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, í síma fyrr í dag. Hvíta húsið hefur gefið það út að það líti svo á að það sé í þágu Evrópu að samkomulag náist sem marki leið Grikkja í átt að stöðugleika og hagsæld.